Svansvottaðar íbúðir
Svansvottun er opinbera umhverfismerki Norðurlandanna og að okkar mati einn besti formlegi gæðastimpillinn sem til er á íslenskum byggingarmarkaði í dag.
Það sem við hjá JÁVERK eru hvað hrifnust af varðandi Svansvottunina er að fyrir utan það að huga að minni umhverfisáhrifum þá eru stífar kröfur varðandi gæði húsnæðisins og heilnæmi fyrir notendur.
Umhverfisstofnun er umsjónaraðili Svansins á Íslandi og sjá þau um eftirlit, yfirfara öll gögn og votta byggingarnar þegar sýnt hefur verið fram á að öllum skilyrðum er fullnægt.
Í Svaninum eru bæði skyldukröfur og valkröfur. Skyldukröfurnar þarf allar að uppfylla en velja þarf ákveðinn fjölda af valkröfum því ná þarf ákveðnum lágmarksfjölda stiga fyrir þær.
Betri innivist og aukin lífsgæði!
Þessar kröfur koma bæði þeim sem vinna með efnin og ekki síður notendum húsnæðisins til góða. Byggingarefni eins og öll önnur efni seyta frá sér efnum og með þessum kröfum er búið að koma í veg fyrir að eiturefni séu að losna úr byggingarefnum hússins og menga inniloftið.
Íbúðir þurfa að standast kröfur um orkunýtingu og má því gera ráð fyrir lægri orkureikningum en annars væri. Í öllum íbúðum er loftskiptikerfi með varmaendurvinnslu sem þýðir að inniloftið sem blásið er út er notað til að hita upp ferska loftið sem blásið er inn í íbúðina. Allt loft sem blásið er inn fer í gegnum síu sem hreinsar m.a. burt ryk og frjókorn.
Loftskiptikerfið tryggir því góð loftskipti allan ársins hring, minnkar líkur á rakaskemmdum og bætir gæði inniloftsins verulega.
Ein af kröfum Svansins er sérstök rakavarnaráætlun og framkvæmd rakamælingar á byggingarefnum þar sem sérstök hætta er á að mygla myndist.
Þessi krafa er sérlega mikilvæg, bæði hvað varðar umhverfis og gæðamál. Það eru mikil umhverfisáhrif af því að þurfa að fara í viðgerðir vegna rakaskemmda, það er kostnaðarsamt og síðast en ekki síst mjög mikilvægt fyrir heilsu íbúanna að lenda ekki í rakaskemmdum og myglu.