Siðareglur birgja
JÁVERK hefur sett sérstakar Siðareglur birgja (e. Suppliers Code of Conduct) innan félagsins og byggja þær á sama grunni og stefna JÁVERK um samfélagslega ábyrgð. Siðareglunum er ætlað að auðvelda félaginu að framfylgja stefnu sinni um samfélagslega ábyrgð auk þess að veita birgjum hvatningu til að bæta viðskiptahætti þegar það á við. Siðareglur ná til allra stærri eða viðvarandi birgja félagsins og er birgjum gert að tryggja framfylgd undirverktaka eða birgja sinna þegar kemur að verkefnum sem unnin eru fyrir JÁVERK. Siðareglur birgja eru afhentar birgjum JÁVERK, þegar það á við, við upphaf viðskiptasambands og þeim gert að undirrita staðfestingu á að þeir hafi móttekið þær og muni virða þau ákvæði sem þar eru sett fram.
Mannréttindi og vinnumál
Mismunun
Birgjar skulu skapa starfsumhverfi sem einkennist af jafnrétti, umburðarlyndi og gagnkvæmri virðingu. Þeir sjái til þess að starfsmenn fái jöfn tækifæri og njóti jafnréttis án mismununar óháð þjóðerni, kyni, kynþætti, trúar, stjórnmálaskoðana, aldurs, kynhneigðar, atgervis, fötlunar, efnahags eða stöðu að öðru leyti.
Heilsa og öryggi
Birgjar sjái til þess að vinnuumhverfi starfsfólks sé heilsusamlegt og öruggt. Þeir skulu taka markviss skref til að draga úr slysahættu ásamt því að fara eftir lögum og reglum viðkomandi lands um aðbúnað á vinnustað og sjái starfsfólki sínu fyrir viðeigandi búnaði og þjálfun í öryggis- og vinnuverndarmálum og tryggja að allir, hvort sem um er að ræða starfsfólk eða undirverktaka séu slysatryggðir i störfum sem unnin eru beint eða óbeint fyrir JÁVERK. Birgjar skulu tryggja varnir og viðeigandi viðbrögð við einelti, ofbeldi og áreiti á vinnustað.
Félagafrelsi og réttur til kjarasamninga
Birgjar skulu virða og viðurkenna rétt starfsfólks til félagafrelsis og gerð kjarasamninga. Sé réttur til félagafrelsis og/eða gerð kjarasamninga takmarkaður samkvæmt lögum í viðkomandi landi skulu birgjar heimila starfsfólki að kjósa sér fulltrúa til að verja rétt þeirra á vinnustað.
Nauðungarvinna
Tryggja verður að sú vinna sem framkvæmd er af starfsfólki sé unnin af fúsum og frjálsum vilja án nauðungar og að starfsfólki sé frjálst að segja upp vinnu sinni og hætta með hæfilegum eða lögbundnum fyrirvara. Óheimilt er að krefja starfsfólk um að afhenda verðmæti, skilríki eða annað til vörslu hjá launagreiðanda.
Barnavinna
Birgjar skulu ekki ráða börn undir lögaldri til að framkvæma vinnu sem er hættuleg eða skaðleg heilsu þeirra og öryggi. Jafnframt skal fylgja löggjöf í viðkomandi landi eða reglum um lágmarksaldur til starfa samkvæmt skilyrðum Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO).
Laun, vinnutími og önnur vinnuskilyrði
Birgjar bera ábyrgð á því að starfsfólk og aðrir sem starfa beint eða óbeint fyrir JÁVERK fái laun greidd a.m.k. mánaðarlega og að greiðslur, eða hluti þeirra, verði ekki eftir hjá milliliðum. Greidd skulu a.m.k. lágmarkslaun eins og gerð er krafa um í lögum, reglum og/eða kjarasamningum í viðkomandi landi. Tryggja verður framfylgd við lög og reglur um réttindi starfsfólks t.d. til hvíldar, lengdar vinnutíma, orlofs, veikindaréttar og annarra launakjara.
Umhverfismál
JÁVERK mælist til að birgjar þekki umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitist við að draga úr þeim með markvissum hætti.
JÁVERK leitast við að nota vottuð og/eða umhverfisvæn byggingarefni og skulu birgjar gera slíkt hið sama í verkum fyrir félagið auk þess sem horfa skal til hringrásarhagkerfis og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og myndun úrgangs.
Viðskiptasiðferði
Siðferði í viðskiptum
Birgjar JÁVERK skulu viðhafa viðurkennda viðskiptahætti og vinna gegn kúgun, peningaþvætti, samkeppnishömlum, fjársvikum og spillingu. Þeir bjóði ekki eða biðji um, krefjist, veiti eða þiggi mútur með beinum eða óbeinum hætti, fyrir sjálfa sig eða aðra.
Hagsmunaárekstrar
JÁVERK vill í viðskiptum sínum stuðla að því að skapa sameiginlegt virði fyrir alla hagsmunaaðila og samfélagið í heild. Hvers konar hagsmunaárekstra skal forðast í viðskiptum við JÁVERK. Með hagsmunaárekstrum er t.d. átt við að fulltrúi birgja, skyldmenni hans eða vinir hafi eða geti haft persónulega hagsmuni af þeim viðskiptum sem um ræðir, þannig að stangist á við hagsmuni JÁVERK. Birgi tilkynni JÁVERK án undantekninga um mögulega hagsmunaárekstra.
Trúnaðarupplýsingar
Hafi birgi aðgang að upplýsingum um JÁVERK eða viðskiptavini JÁVERK sem gætu talist trúnaðarmál ber honum að meðhöndla þær upplýsingar sem slíkar.