Siðareglur og varnir gegn spillingar- og mútumálum

A. Starfsfólk JÁVERK
  • Starfsfólk JÁVERK veitir ekki undir neinum kringumstæðum ósannar eða villandi upplýsingar. Þess er gætt að varpa ekki rýrð á stöðu keppinauta félagsins heldur tryggja að allur samanburður sé sanngjarn og nákvæmur.
  • Starfsfólk JÁVERK skal forðast að lenda í þeim aðstæðum að persónulegir eða fjárhagslegir hagsmunir þeirra geti stangast á við hagsmuni félagsins.
  • JÁVERK vill í viðskiptum sínum stuðla að því að skapa sameiginlegt virði fyrir alla hagsmunaaðila og samfélagið í heild. Hvers konar hagsmunaárekstra skal forðast í viðskiptum við JÁVERK. Með hagsmunaárekstrum er t.d. átt við að starfsfólk, skyldmenni þess eða vinir hafi eða geti haft persónulega hagsmuni af þeim viðskiptum sem um ræðir, þannig að stangist á við hagsmuni JÁVERK. Starfsfólk tilkynni JÁVERK án undantekninga um mögulega hagsmunaárekstra.
  • Starfsfólk bjóði ekki eða biðji um, krefjist, veiti eða þiggi mútur með beinum eða óbeinum hætti, fyrir sjálfa sig eða aðra.

Meðferð trúnaðarupplýsinga

  • Hvað eina sem stjórn og starfsfólk verður áskynja um í störfum sínum fyrir JÁVERK um rekstur félagsins eða viðskiptavina þess og talist getur trúnaðarupplýsingar, skal meðhöndlað sem slíkt nema lög standi til annars. Starfsfólki er með öllu óheimilt að nota trúnaðarupplýsingar úr starfi í eigin ábataskyni.
  • Eingöngu starfsfólk hefur aðgang að skrifstofu félagsins. Starfsfólk skal læsa skjám og deila aldrei aðgangskóðum með öðrum, til að tryggja öryggi gagna og upplýsinga.
  • Þess er vandlega gætt að persónulegar, starfstengdar upplýsingar um starfsfólk félagsins séu ekki veittar þriðja aðila þvert á reglur félagsins.
  • JÁVERK hefur sett sér Persónuverndarstefnu og skal starfsfólk fara í einu og öllu eftir Persónuverndarlögum og reglum GDPR (General Data Protection Regulation). Settir hafa verið verkferlar í samræmi við Persónuverndarlög.

Siðferðileg vafamál – vernd uppljóstrara

  • Starfsfólk JÁVERK er hvatt til þess að ræða við framkvæmdastjóra, eða aðra stjórnendur ef mál varðar framkvæmdastjóra, ef það telur siðferðileg vafamál koma upp tengd starfsemi félagsins. Jafnframt er lagt að starfsfólki að tilkynna framkvæmdastjóra um misbresti sem það verður vart við.
  • Starfsfólk skal í engu gjalda þess að beina slíkum tilkynningum í góðri trú til framkvæmdastjóra eða annarra stjórnenda, enda gilda um slíkar tilkynningar lög um vernd uppljóstrara og skal fara með tilkynningar í samræmi við ákvæði þeirra laga, þ.m.t. um vernd uppljóstrara og viðbrögð móttakanda tilkynningar.
  • Starfsfólki JÁVERK eru kynnt ákvæði laga um vernd uppljóstrara og verklagsreglur þær sem félagið hefur sett um uppljóstrun starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi.
B. Siðareglur birgja
  • JÁVERK hefur sett sérstakar Siðareglur birgja (e. Suppliers Code of Conduct) innan félagsins og byggja þær á sama grunni og stefna þessi um samfélagslega ábyrgð. Er siðareglunum ætlað að auðvelda félaginu að framfylgja stefnu þessari um samfélagslega ábyrgð auk þess að veita birgjum hvatningu til að bæta viðskiptahætti þegar það á við.
  • Siðareglurnar ná til allra stærri eða viðvarandi birgja félagsins og er þeim gert að tryggja framfylgd undirverktaka eða birgja sinna þegar kemur að verkefnum sem unnin eru fyrir JÁVERK.
  • Siðareglurnar eru afhentar þeim birgjum JÁVERK sem þær eiga við um við upphaf viðskiptasambands og þeim gert að undirrita staðfestingu á að þeir hafi móttekið þær og muni virða þau ákvæði sem þar eru sett fram.
content image